Agnes í Sykri – Fólkið, fjörið og fjöllin

Sykur er hreinræktað stuðband og er þekkt fyrir kynngimagnaða framkomu og kraftmikið sánd þegar það kemur fram. Bandið slúttar hátíðinni í kvöld sem síðasta atriði á sviði og mun örugglega gera það á eftirminnilegan hátt. Við fengum Agnesi, söngkonu Sykurs, til að svara nokkrum spurningum sem brunnu á okkur. Agnes er að koma fram í annað skipti með Sykri á AFÉS en áður hafði hún upplifað hátíðina tvisvar sinnum sem gestur og kann góða sögu af því að segja.

Hvað dregur þig til að spila á Aldrei?
Fólkið, fjörið og fjöllin.

Hvað er ómissandi að gera á Ísafirði yfir Aldrei?
Það er nauðsynlegt að njóta útiverunnar, klæða sig vel og labba í partí inni í firði.. Og til baka því báðir leigubílarnir á Ísafirði eru uppteknir.

Hvaða listamanni ert þú mest spennt yfir að sjá á hátíðinni í ár?
Vá erfitt að segja! Ég er spennt  fyrir svo mörgu! ÖLLU BARA!! GKR er með hjartað á réttum stað, Emiliana bræðir alltaf og Agent Fresco ná mér í gírinn. OG Tonik Ensemble er „one to watch“.

Kanntu góða sögu af einhverju sem hefur gerst á hátíðinni?
Einu sinni eftir hresst kvöld á AFÉS vaknaði ég á Þingeyri. Ég vissi ekkert hvar ég var, spurði einhvern bónda í hvaða átt Ísafjörður væri og byrjaði að labba. Ung og óreynd var ég í sokkabuxum og kjól í frostinu en sem betur fer kom mér til hjálpar fjölskylda sem var á leið í fermingu á Ísafirði. Þau voru öll í þjóðbúningum og ég sat í kremju afturí í djammgallanum. Mjög kómískt. Ég náði aldrei að þakka þeim almennilega fyrir farið og vil hér með gera það! Svo almennilegt fólkið þarna á Vestfjörðum!

Hverju má búast við af Sykri í kvöld?
Í kvöld munum við kynna ykkur fyrir nýja efninu sem við höfum verið að semja. Við erum mjög spennt að sýna ykkur! Það er rokkað, rafmagnað og dansvænt allt í senn. Svo spilum við líka eitthvað gamalt og gott fyrir ykkur elsku vinir. Þetta verður veisla!