Flugferðin ógurlega

Teflt er í tvísýnu þegar ákveðið er að fljúga til Ísafjarðar. Þrátt fyrir að vera komin alla leið inn í vél, sest og með spennt öryggisbeltin leituðu á okkur spurningar: Tekst vélin á loft? Verður ókyrrð í lofti? Þurfum við að snúa við þegar við svífum yfir Ísafirði og eigum örfáar mínútur til lendingar? Mun vængurinn á flugvélinni strjúkast við fjallshlíðina og við hrapa til jarðar??!!

Flugið til Ísafjarðar var hið prýðilegasta útsýnisflug

Áhyggjurnar voru algjörlega óþarfar því þessi 40 mínútna flugferð gekk algjörlega áfallalaust fyrir sig. Okkur var meira að segja fært kaffi áfallalaust af flugfreyjunni sem afrekaði að færa öllum farþegum vélarinnar eitthvað vott á milli þess sem við tókum á loft í Reykjavík og lentum á Ísafirði. Samferðamenn okkar voru ekki af verri endanum en fyrir aftan okkur sátu Óli Dóri og GKR svellkaldir og spenntir fyrir kvöldinu. Þeir spila á Krúsinni í kvöld sem er, fyrir þá sem ekki þekkja, knæpa Ísafjarðar. Staðurinn gæti verið af setti úr David Lynch mynd þar sem þú gengur um teppalögð gólf undir mystískri lýsingu ljóskastaranna og pantar stóran bjór í dós af barnum.

GKR og Óli Dóri voru pollrólegir yfir tilhugsuninni um óhuggulegt flug

Milt regn og himinhá fjöllin tóku á móti okkur þegar við stigum út úr flugvélinni á Ísafirði. Þokuský hylja efstu toppa fjallanna svo að þau virðast endalaus. Byggðin reynir að tryggja sér tilverurétt sinn á þeim landspildum sem teygja sig út frá fjöllunum áður en sjórinn tekur við. Sjórinn virðist líka endalaus. Velkomin til Ísafjarðar!

Halló Ísafjörður!