Gamla bakaríið – lítill snúður og mjúk kringla

Einn staður á sér tryggan stað í hugum og hjörtum þeirra sem þekkja Ísafjörð en það er Gamla bakaríið sem er staðsett við Silfurtorg. Bakaríið er jafnvel fyrsti viðkomustaður þeirra sem koma til Ísafjarðar, áður en þeir segja hæ við mömmu og pabba og áður en farið er að tékka sig inn á gistipláss.

Ísfirðingar eru stoltir af bakaríinu sínu sem hefur verið rekið í næstum öld af sömu fjölskyldunni. Þriðji ættliðurinn stendur að rekstrinum núna og er greinilegt að um fjölskyldubakarí er um að ræða þegar gengið er inn þar sem saga þess og Ísafjarðar er rakin með myndasýningum á veggjunum. Bakaríið er orðið að hálfgerðri stofnun í samfélaginu þar sem hægt er að leita athvarfs þegar löngun í gotterí og kaffibolla svífur að.

Aðalsmerki bakarísins er lítill snúður. Snúður sem er á stærð við lófann á þér en ekki höfuðið á þér eins og þeir eru flestir í bakaríum landsins. Hægt er að fá snúðinn annaðhvort með hörðu súkkulaði eða glassúr. Snúðurinn er hinn fullkomni eftirmatur eða síðdegishressing með rjúkandi kaffibolla en annars mælum við með honum á öllum tímum dags.

Sumir myndu segja þetta vera hinn fullkomni snúður, við andmælum því ekki.

Kringlurnar í bakaríinu eru einnig hið mesta lostæti með yndislegu kúmenbragði og mjúkar undir tönn. Hverjum datt annars í hug að búa til harðar kringlur??! Í Gamla bakaríinu er einnig hægt að fá annað klassískt kruðerí eins og Napóleónshatta og Franska vöfflu. Bakaríið er óhrætt að brjóta upp á nýjungum líkt og þegar það fór að bjóða upp á kleinuhringi í yfirstærð (lítill snúður – risa kleinuhringur) og í morgun rákumst við á nýmeti sem bar heitið „Snúðahringur“. Við eigum svo sannarlega eftir að prufa þá nýjung.

Minning Ruthar Tryggvason er gert hátt undir höfði í bakaríinu en hún rak bakaríið til fjölda ára ásamt fjölskyldu sinni

Þeir sem eiga leið um Ísafjörð ættu að taka sér tíma til að koma við á Gamla bakaríinu, setjast niður og njóta bakkelsins sem þar býðst og kynna sér söguna sem þar er upp á veggjum.

Kleinuhringir í yfirstærð, namm.