Heimsókn í Musteri vatns og vellíðunar í Bolungarvík

Einu sinni var ekki hægt að fara frá Ísafirði til Bolungarvíkur nema með því að aka hinn varasama Óshlíðarveg, á hverjum maður gat átt von á að fá grjóthnullunga eða snjóflóð yfir sig við það eitt að aka hann. En þökk sé mannlegu hugviti sem finnst sniðugt að bora sig í gegnum fjöll voru Óshlíðargöng opnuð árið 2010. Göngin hafa aukið öryggi ökumanna og eflt samgöngur á milli þessara tveggja kaupstaða við Ísafjarðardjúp. Við skelltum okkur glöð í bragði til Bolungarvíkur í dag til að skoða kaupstaðinn enda aðeins ca. 10 km að fara frá Ísafirði.

Besta götunafn í heimi

Markmið ferðarinnar var að heimsækja Musteri vatns og vellíðunar (já, sundlaug Bolungarvíkur ber þetta opinbera heiti) sem er sannkölluð heilsulind staðarins. Sundlaugin er ein af þeim skemmtilegu bæjarsundlaugum út á landi þar sem boðið er upp á kaffi út í pott. Þar ægir saman heimamönnum, aðkomumönnum og túristum í hrærigraut og má bóka það að samræðurnar í heitu pottunum geta verið æri hressilegar. Gufubaðið er kafli út af fyrir sig – hún er yfirleitt kynjaskipt eftir vikudögum og hægt að flatmaga á slökunarbekkjum eftir að hafa svitnað í gufubaðinu. Í dag var hægt að hlusta á tónlist undir yfirborði vatns í innanhúslaug sundlaugarinnar sem við vorum forvitin að prufa. Poppslagarar á við Sorry með Justin Bieber og lög með Shakiru sem undirrituð ber ekki kennsl á voru spiluð á meðan unglingar Bolungarvíkur kaffærðu hvor öðrum í sundlauginni.

Þegar við vorum að ganga í átt að búningsklefunum rákumst við á heldur forvitnilega auglýsingu á upplýsingatöflu sundlaugarinnar. Þar var auglýsing sem lýsti eftir aðilum til að takast á við svokallað Þrýstipróf Sigmundar. Sigmundur þessi vinnur í sundlauginni og trúir að því virðist á hraustleika líkama og sálar. Þrýstiprófið gengur út á að ná að lyfta ákveðnum kílóum í bekkpressu, 100 kg fyrir karla og 50 kg fyrir konur, til þess að öðlast sérstakt viðurkenningarskjal. Sigmundur sjálfur þarf að vera viðstaddur þegar afrekið er unnið og veitir hann hverjum þeim sem nær prófinu sérstakt viðurkenningarskjal, vottað af honum sjálfum og stimplað með forláta stimpli sem hann lét hanna fyrir sig. Á upplýsingatöflunni mátti einnig líta lista yfir þá sem höfðu náð prófinu í karla- og kvennaflokki. Listinn var ekki mjög langur sem sýnir hverskonar afrek er um að ræða.

Forkröfur þess sem skal þreyja Þrýstipróf Sigmundar
Forkröfur þess sem skal þreyja Þrýstipróf Sigmundar

Eftir dvöl í Musteri vatns og vellíðundar fannst okkur við vanta aðeins meiri ferskleika svo við ákváðum að skella okkur í göngutúr í hríðarstorminum upp á snjóflóðarvarnargarðana. Þeir eru mikið mannvirki sem falla þó ágætlega að náttúrulegu umhverfi staðarins. Við fukum upp á topp garðanna en þaðan er að finna gott útsýni yfir bæinn. Á leiðinni niður bitum við á jaxlinn á móti mótvindinum og töldum okkur nógu fersk til að taka á móti gleðinni sem mætir okkur í kvöld á fyrsta tónleikakvöldi Aldrei.

Ferskleikinn sogaður í sig á göngu upp á snjóflóðarvarnargarðana
Ferskleikinn sogaður í sig á göngu upp á snjóflóðarvarnargarðana
Það er ekki frá því að það votti fyrir örlítilli minnimáttarkennd þegar maður stendur við hlið snjóflóðavarnargarðs Bolungarvíkur.
Geiri á sjoppunni tekur á móti þér og þínum
Geiri á sjoppunni tekur á móti þér og þínum
Musterið