Ísafjörður here we come!

Á gólfinu liggja opnar ferðatöskur sem er búið að troða út af samanbrotnu föðurlandi, lopapeysu, ullarsokkum, trefli, húfu og kuldaskóm ásamt örlítilli brjóstbirtu. Um er að ræða staðalbúnað þess sem er á leiðinni á Aldrei fór ég suður um páskana og ætlar ekki að láta kuldann stoppa sig í stuðinu. Við vitum hvað þarf að taka með því við höfum farið áður og pökkum af reynslu. Föðurlandið er nauðsyn – alla dagana – alltaf. 

Við erum Hugrún og Hörður og munum færa ykkur rokkið, fólkið og segulmátt Vestfjarða með máli og myndum næstu daga.

Hörður er mikill reynslubolti þegar kemur að Aldrei fór ég suður en hann er að sækja hana í tíunda skipti. Hann hefur einungis misst af hátíðinni þrisvar eða þegar aðeins viðameiri viðburðir áttu sér stað í hans lífi: fæðing barnanna hans og gerð lokaverkefnis í Listaháskólanum. Hörður er ljósmyndari sem hefur myndað tónleika villt og galið um allar trissur, elskar Ísafjörð, kaffi og að gera krossgátur. Hugrún er ekki eins sjóuð í að sækja hátíðina heim og er að fara í fjórða skipti. Hún hefur beðið spennt eftir hátíðinni í ár, elskar Helga Björns, chili og að flatmaga í heitu pottum sundlauganna.    

FM Belfast tryllir áhorfendur AFÉS árið 2011.

Allar leiðir liggja til Ísafjarðar – á meðan það er fært. Í fyrra keyrðum við í um sjö klukkustundir á Ísafjörð og vorum orðin heldur óþreyjufull eftir því að keyra síðasta endalausa fjörðinn inn í bæinn til að hefja fjörið. Við förum með flugi í ár og upplifum þar með eitt erfiðasta og svakalegasta aðflug sem vitað er um í heimi. Farþegar fara með faðirvorið á meðan flugvélin flýgur meðfram fjallshlíðinni yfir Ísafirði og tekur svo skyndilega skarpa beygju til lendingar. Heilir á húfi og með nagaðar neglur upp í kviku fagna farþegar í hvert skipti sem þeir lenda á Ísafjarðarflugvelli.

IMG_5243
Víst fór Rass suður!

Við getum að minnsta kosti ekki beðið eftir að lenda í dag og upplifa hvernig stuðið leysist úr læðingi bara við það að stíga á ísfirska grundu. Á meðan styttum við okkur stundirnar fram að fyrsta tónleikadegi í skemmunni sem er á föstudaginn langa með því að hlusta á þennan Spotify playlista sem við útbjuggum. Listinn inniheldur lög með listamönnum sem tengjast Ísafirði á einn eða annan hátt, eru þar uppaldir, áttu þar vetrar- eða sumarsetu (Birgitta Haukdal vann í Krílinu eitt sumar), eiga þar afa og ömmu eða önnur vensl eða langsótt tengsl.

Njótið!