Ísafjörður þú vekur mig!

Stemmningin fyrir seinna kvöldi AFÉS var magnþrungin og augljóst að margir komu til að bera uppáhalds tónlistarmenn sína augum. GKR reið á vaðið og náði vel til áhorfenda með líflegri og afslappaðri sviðsframkomu. Ekki er langt síðan að GKR kom fram á sjónarsviðið en þrátt fyrir það virðist hann hvergi annarsstaðar eiga heima en upp á sviði. „Normcore“ tískan hefur einnig náð nýjum hæðum með tilkomu GKR sem er greinilegt með fatavali og umfjöllunarefni laganna hans – það geta ekki allir púllað að semja lag um morgunmat! Óli Dóri spilaði með honum að þessu sinni og vöktu félagarnir sérstaka lukku þegar þeir fleygðu litlum páskaeggjum út til áhorfenda. Sannkallaðir gleðigjafar á ferð!

GKR

Mamma Hestur kom inn í dagskránna á eftir GKR sem var einkar ánægjulegt en allt leit út fyrir að þeir gætu ekki stigið á stokk í ár. Bandið er menntaskólaband sem spilar 90’s skotið klarinetturokk (ef þú hélst að klarinettuleikur eigi ekki heima í rokkhljómsveit þá skaltu endurskoða lífsviðhorf þitt!).

Klarinetturokk! Ójá

Lítið olnbogaskot var að finna á milli áhorfenda þegar Emilíana Torrini steig á svið. Við hið fyrsta bros bræddi hún salinn eins og smjör en sagðist hafa gleymt dívukjólnum sínum heima þar sem hún var svo upptekin við að pakka niður skíðafötum. Hún sagði Mugison hafa gert tilraunir með að stílisera hana án árangurs – við hefðum vissulega viljað sjá þá útkomu. Bandið hennar á hrós skilið fyrir undirspilið þar sem þau hefðu aðeins hist í fáein skipti til að æfa samhljóminn.

Spenningurinn ætlaði að yfirkeyra unglingana í skemmunni þegar Úlfur Úlfur kom á svið. Áhorfendur sungu fullum rómi með eins og þeir hefðu lært textana utanbókar úr Skólaljóðum. Strákarnir í Agent Fresco veittu þeim liðssinni og spiluðu undir og tók Arnór Dan nokkur lög með úlfunum frá Sauðárkróki.

Meðlimir Risaeðlunnar eru risaeðlur í bransanum og kunna sitt fag þegar kemur að tónlistarflutningi. Magga Stína og Halldóra Geirharðs voru eiturhressar á sviðinu og tóku allsvakalega snúninga með fiðluna og saxófóninn að vopni. Endurkoma Risaeðlunnar var orðin löngu tímabær og skemmtilegt að Aldrei hafi lokkað meðlimi þeirra aftur saman.

Risaeðlan gerir sig klára

Raftónlistarbandið Tonik Ensemble sem samanstendur af Antoni Kaldal Ágústsyni steig næst á svið. Tónlist hans einkennist af mjúkum raftónum í bland við vægt saxófón undirspil – tónlist sem lætur ljúft í eyrum.

Tonik Ensamble

Sykur rak smiðshöggið á dagskrá hátíðarinnar. Bandið átti vel við sem lokaatriði kvöldsins þar sem þau fjögur fræknu, Halldór, Kristján, Stefán og Agnes, fengu alla til að hrista skankanna og sveifla mjöðmum í takt við tónlistina. Þau enduðu giggið á því að taka Reykjavík eða með smá útúrsnúningi: Ísafjörður vekur mig!  Þau fengu  hóp fólks upp á svið til að tjútta með og gleðin náði hæstum hæðum.

SYKUR!
SYKUR!

Skoðið myndirnar hér fyrir neðan því myndir segja meira en þúsund orð!

Agnes á leið á sviðið
Halldóra Geirharðs í Risaeðlunni
Tonik Ensamble
Magga Stína
Risaeðlan
Meistari Megas var mættur á svæðið, samt því miður ekki til að spila.
Úlfur Úlfur
Emilíana Torrini grettir sig í gang
Emilíana Torrini
GKR

Óli Dóri!
Halldór Eldjárn í Sykri