Kristján Freyr – Fífldirfska og góður fílingur

Kristján Freyr Halldórsson, Hnífsdælingur með meiru, hefur verið einn af helstu skipuleggjendum Aldrei fór ég suður allt frá því að hátíðin fór fyrst af stað. Hann hefur verið upp yfir haus í skipulagningu og upplýsingagjöf síðustu daga en við náðum að smella á hann nokkrum spurningum sem hann glaður svaraði með sínu lagi.

 

Nú er hátíðin haldin í 13. skipti og hefur algjörlega fest sig í sessi sem ein af helstu tónlistarhátíðum landsins. Hvað hefur Aldrei gert fyrir Ísafjörð frá því að hún var fyrst haldin?
Aldrei fór ég suður hefur vitaskuld sett mikinn brag á bæjarfélagið og nágrannabyggðarlög síðustu árin. Hátíðin hefur án alls vafa laðað fólk hingað vestur, fólk sem mögulega hafði ekki það einbeittan brotavilja til að heimsækja Ísafjörð að vetri til. Burt séð frá þeirri lyftistöng sem hátíðin er fyrir þjónustu og verslun á svæðinu þá eru gestir hátíðarinnar mjög líklegir til að heimsækja Vestfirði aftur. Það er gaman að geta kynnt svæðið fyrir fólki sem hefur mögulega aldrei komið hingað áður og ég held að mesti sigurinn sé falinn í því að minnka gjána milli höfuðborgarinnar og annarra landshluta og auka skilning á menningu og misjöfnum aðstæðum.
 
Hvað þarf að vera til staðar til að rokkhátíð í 4000 manna samfélagi gangi upp?
Fífldirfska og góður fílingur eru kjölfestuatriðin. Þó að hópurinn sem stendur að hátíðinni sé ekki gríðarstór þá er þetta risastórt verkefni fyrir allt samfélagið hér. Það er yndislegt að finna samhug í verki hjá bæjarbúum, það eru allir tilbúnir að hjálpa til. Sömuleiðis höfum við fengið verulegan stuðning fyrirtækja sem gerir okkur kleift að setja upp svo stóra hátíð á hverju ári og að þar að auki að bjóða íslenskri alþýðu á hátíðina.

 

Hvernig er að setja upp hátíð á nýjum stað að þessu sinni? Hvernig leggst breytingin í ykkur?
Við erum gríðarlega spennt fyrir nýju skemmunni okkar. Ég er í þann mund að fara að heyra fyrstu tónana í prufukeyrslu og ég hlakka til. Hún er aðeins stærri að grunnfleti en sú síðasta. Við teljum staðsetningu skemmunnar helsta kostinn hennar og hvetjum sem flesta að koma gangandi ef þeir geta. Við munum mögulega lenda í vandræðum með fjölda gesta og ljóst að við tökum ekki endalaust við fólki inn í skemmu en það er okkar von að flæðið verði gott og fólk sýni okkur skilning og verði í góðum fíling á svæðinu. Þetta er allavega draumasvæðið okkar og við erum sannfærð um að þetta verði algjörlega frábært í ár!
Agent Fresco soundtékkar á nýja sviði hátíðarinnar
Agent Fresco soundtékkar á nýja sviði hátíðarinnar
Kanntu góða sögu af einhverju sem hefur gerst á hátíðinni?
Ég held alltaf mest uppá söguna af Dóra Hermanns, skipstjóra sem var kynnir okkar eitt árið. Eftir að hljómsveitin Hjálmar frá Keflavík höfðu æft stanslaust í nokkrar vikur með nýjum liðsmönnum frá Svíþjóð, og keyrt svo vestur í dágóðan tíma, fóru þeir gríðarlega spenntir á svið í fyrsta skipti með nýju liðsmennina á Aldrei fór ég suður árið 2005 í Edinborgarhúsinu. Okkar maður Dóri hafði ekki eirð í sér fyrir einhverja rólega reggítónlist svo að hann henti þeim af sviðinu í 2. laginu og kynnti á sviðið hljómsveitina Trabant. Eftir allt þetta hafurtask Hjálma þá spiluðu þeir ekki nema um eitt og hálft lag. Þeir hafa komið til okkar frá því þetta gerðist og blessunarlega allir sáttir.

 

Hvaða listamanni ert þú mest spenntur yfir að sjá á hátíðinni í ár?
Mer finnst ég ekki geta tekið eitthvað eitt atriði út. Ég er bara yfir mig glaður yfir dagskránni í ár. Mér finnst hún mjög fjölbreytt, mér finnst hún hugdjörf og frumleg. Ef það er eitthvað sem ég er almennt ánægður með þá er það hvernig Aldrei fór ég suður getur leyft sér að fara ótroðnar slóðir í bland við vinsæla skemmtikrafta. Það að við sjáum Strigaskó nr. 42., Risaeðluna, Ladda og Glowie á sömu hátíð er alveg steikt og helber snilld.
 
Hverju mælir þú með fyrir þann sem er að koma til Vestfjarða í fyrsta skipti?
Vá, ég mæli með: harðfisknum hans Finnboga, göngutúr uppí Naustahvilft, sundi á Suðureyri, heimsókn í Hnífsdal, pizzunni á Bræðraborg, Örnuís á Hamraborg, dansa í Krúsinni, Vagninum á Flateyri, Rot Tæ matsöluhjólhýsinu í Bolungarvík, fara á skíði í Tungudal, Kroppsælu í Krílinu, safnasvæðinu í Neðstakaupstað, heimsókn á Gamla Sjúkrahúsið, kísilskoti, Gamla Bakaríinu og fyrir alla muni munið að stoppa úti í náttúrunni, anda að ykkur hreina loftinu og hugsa um hvað það er nú ljúft að vera til. Ekki samt gleyma að kaupa Aldrei fór ég suður varninginn til styrktar hátíðinni og svo er það glappaskot að gleyma Tjöruhúsinu.

 

Og að lokum: lítill snúður eða stór snúður?
Sko, ég gæti trúað að sá minni sé í öllu falli heppilegra magn en þar sem sá stóri kom á undan þá er ég bara alltof íhaldssamur. En ég fer varla að tala um snúða fyrren ég hef fengið kringluna mína!