Rúnturinn – Suðureyri við Súgandafjörð

Þrátt fyrir að Ísafjörður bjóði upp á allt sem að hugurinn girnist og margt áhugavert að sjá þá mælum við með því að fólk geri sér skottúr til smærri þorpanna í kring. Í gær gerðum við okkur ferð til Bolungarvíkur en í dag ákváðum við að taka rúntinn til Suðureyrar við Súgandafjörð. Enn og aftur þurftum við að keyra í gegnum göng, Vestfjarðagöngin, en passa þarf upp á að taka beygju úr göngunum til að komast til Suðureyrar. Við vorum svo áköf í að missa ekki af beygjunni að við beygðum næstum á vegg ganganna.

Ekið í átt til Suðureyri

Göngin eru einbreið og frekar ógnvænleg fyrir venjulegan Reykvíking sem er bara vanur að keyra á breiðum borgarstrætum með topplúguna opna. Göngin eru aðeins um 3 km að lengd en okkur fannst eins og það tæki heila eilífð að keyra þau í gegn. Við rákum upp eitt halelúja óp þegar við sáum ljósið við enda ganganna sem var skar í augun því Súgandafjörður var þakinn mjallhvítum snjó.

Halló Suðureyri

Suðureyri er snotur bær sem byggist upp í fjallshlíð. Auðvitað vorum við í þeim erindagjörðum að baða okkur í sundlaug staðarins sem virtist reyndar vera fjölsóttasti staður Vestfjarða á þeim tíma sem við vorum þarna því maður var við mann – eða rasskinn við rasskinn – í búningsklefum sundlaugarinnar.

Sundlaugin

Í Sundlaug Suðureyrar er ljúft að láta dansharðsperrur gærdagsins líða úr sér. Töfrar sundlaugarinnar felast einkum í risastórum hitapotti sem gæti mögulega rúmað helming þjóðarinnar – ef við myndum bara reyna – og ókeypis kaffi sem má sötra í heita pottinum. Auk þess selur sundlaugin íspinna sem má narta í út í laug. Suðureyri er perla heim að sækja – smellið ykkur í ferð þangað í gegnum ógurleg göng til að svamla í heitum potti og sleikja ís.

Afhverju er ekki hægt að fá sér kaffi í öllum sundlaugum landsins?
Já eða ís!