Takk ÍsaFJÖRður – Sjáumst að ári!

Ró var yfir Ísafirði í morgun þegar við vorum að ferðbúast heim á leið. Sólin skein og einstaka manneskjur voru á ferðinni, dragandi á eftir sér ferðatöskur og skíðaútbúnað eða á leið í Gamla bakaríið til að sækja sér enn eina kringluna eða snúðinn. Aldrei fór ég suður 2016 hefur runnið sitt skeið en hátíðin heppnaðist frábærlega í alla staði. Skipulagning var til fyrirmyndar, nýja skemman er vonandi komin til að vera – staðsetningin er góð og hljómburðurinn var mun betri en í gömlu skemmunni, tónlistarmennirnir skinu sitt skærasta og fólkið var einbeitt við að halda uppi stuðinu allt frá upphafi til enda.

Agnes í Sykur

Tónleikum AFÉS lauk formlega á laugardagskvöldinu en stuðið var að engu leyti uppurið. Um miðjan dag í gær, páskadag, var hægt að sitja undir uppistandi Sögu Garðars og Hugleiks Dagssonar á Húsinu. Tvíeykið fór með létta leikþætti í anda ungmennafélaganna. Þar sem uppistandið var á mjög svo kristilegum tíma og margt fjölskyldufólk komið saman til að hlusta á þau þurftu þau að breyta örlítið leiktextanum í samræmi við það. Valdimar söng svo hljómþýða slagara á eftir sem gestir Hússins hlustuðu hugfangnir á.

Saga og Hugleikur flytja barnvænt útvarpsleikhús uppistand

Samkvæmt hefðinni bjóða skipuleggjendur AFÉS öllum tónlistarmönnum, fylgifiskum þeirra og öðrum sem standa að hátíðinni í eitt stórt lokapartý þar sem öllum er boðið í kvöldmat og að taka þátt í fjörugri dagskrá. Lokapartýið hófst með viðlagakeppni í Sundlaug Ísafjarðar og á eftir var allri hersingunni boðið að þiggja heimboð skáldsins Eiríks Norðdal. Eiríkur fór með borðstofulestur á ljóðum sínum með miklum tilþrifum og hrifningu gesta.

Hópnum var svo smalað upp í rútu sem keyrði að Félagsheimili Hnífsdælinga þar sem lokapartýið fór fram. Dúkuð langborð og dýrindis matarlykt tók á móti gestum þegar stigið var inn um dyr félagsheimilisins. Kristján Freyr og Saga Garðars voru vandræðalega góðir kynnar kvöldsins. Tónlistarmönnum var skipað niður í hljómsveitir og fengu það hlutverk að semja eitt lag og flytja á sviði. Þjóðlagasveitin Venner, með Sölku Sól og Arnóri Dan í fararbroddi, tróð upp með lagið Verdens krig kommer snart,  Halldóra Geirharðs og Emmsjé Gauti fluttu nýtt eurovisjónlag og Valdimar náði að fanga kjarna þjóðhátíðar í nýju lagi („..botnlaust tjald“). Míkrófónninn var svo látinn ganga á milli manna sem létu gamminn geisa fram á nótt.

Þjóðlagasveitin Venner kom alla leit frá Horsens í Danmörku til að flytja nokkur skemmtileg lög í lokapartýinu

Við viljum þakka Ísafirði og þeim sem standa að Aldrei fyrir ómetanlega stuð helgi! Við sjáumst að ári!