Tjöruhúsið – engin soðin ýsa!

Tjöruhúsið er talið af mörgum ef ekki flestum besta fiskveitingahús landsins. Veitingahúsið er staðsett í gömlu vöruhúsi frá 18. öld í Neðstakaupstað og lítur svolítið út eins og sviðsmynd úr Game of Thrones – eða þið vitið – eins og hús litu út í gamla daga. Það er einmitt þessi gamli sjarmi sem er svo heillandi við staðinn. Einnig hvernig öll þjónusta og framreiðsla er afslöppuð – laus við allt pjatt og prál. Fiskréttirnir sem eru í boði eru algjört lostæti og úrvalið ansi fjölbreytt. Matseðillinn ræðst af afla dagsins og er öruggt mál að þú getur smakkað einhverja fisktegund sem þú hefur ekki fengið áður – eða jafnvel séð eða heyrt af áður! Fiskur er víst ekki bara soðin ýsa.

Mmmmm

Við fórum með góðum vinum á Tjöruhúsið og skófluðum í okkur fiskrétti sem var hver öðrum betri. Sennilega erum við búin að borða meiri fisk um helgina hér á Ísafirði en í heildina yfir árið bara með því að heimsækja Tjöruhúsið. Staðurinn er rekinn af Magnúsi Haukssyni og konu hans, Rönku, en ekki er óalgengt að sjá fjölskyldumeðlimi þjóna til borðs og hlaupa í þau verk sem þarf að vinna. Magnús og bróðir hans, Jóhann, stóðu við pottana og pönnurnar þegar okkur bar að garði og elduðu af mikilli fagmennsku hvern fiskréttinn á fætur öðrum.

Bræðurnir í eldhúsinu
Bræðurnir í eldhúsinu

Hver er galdurinn á bak við þetta ljúffenga fiskmeti? Hvert er leynikryddið?? Hvernig er hægt að elda plokkfisk á fullkominn hátt??? Við kunnum ekki svör við þessum spurningum og viljum helst að dulúðin yfir töfrum Tjöruhúsið haldist ósnortin – vonandi um aldur og ævi. Amen.

Maggi Hauks að störfum
Feðgin framreiða gómsæta fiskrétti
Meistarakokkurinn sjálfur