List í ljósi

Orkusalan heimsækir Seyðisfjörð dagana 18. – 20. febrúar en þá tvo síðari fer fram hátíðin List í ljósi. Þetta er í fyrsta skipti sem hún er haldin en spennandi ljóslistaverk og magnþrungin ljósadýrð munu prýða Seyðisfjarðarkaupstað meðan á hátíðinni stendur. Listamennirnir, sem munu bókstaflega lýsa upp Seyðisfjörð, eru margir og fjölbreyttir, innlendir sem erlendir og ætla að bjóða gestum upp á vídeóverk, innsetningar, ljósaskúlptúra og margt fleira. Við erum stolt af því að vera á meðal bakhjarla Listar í ljósi og vonum að sem flestir njóti með okkur — bæði á staðnum og hér á blogginu.